ÞAÐ ER LAMAN AÐ GESA :)
Það er laman að gesa er útskriftaverkefnið mitt frá Listaháskóla Íslands. Verkefnið fjallar um mína upplifun á lesblindu. 
Í BA-ritgerðinni minni var ég að skoða sambandið á milli leturs og lestur. Meginmarkmiðið með þeirri rannsókn var að reyna finna letur sem hentar best fyrir lestur hjá lesblindum aðilum. Því miður fann ég ekki svarið við hvað er besta letrið en þátttakendur rannsóknarinnar voru sammála um að eitt letur hentaði þeim verst.  
Letrið Times New Roman er letur sem allir þátttakendur voru sammála um að væri það sem olli mestum óþægindum við lestur 
og ræddu þátttakendur í viðtölum um að ef þau fá bók, samning og skjöl í þessu fótaletri leggja þau efnið frá sér oft ómeðvitað. 

Markmið verkefnisins er að sýna aðilum sem eru ekki lesblind hvernig lestur getur verið þegar aðstæður henta illa fyrir lesblindan aðila. Ég tók ákvörðun að gera myndband sem sýnir þessar hreyfingar og þessa upplifun. Mér finnst skipta máli að fólk upplifi allskonar tilfinningar við að horfa á verkið. Reiði, pirringur, uppgjöf eru tilfinningar sem mig langar að vekja upp hjá fólki en á sama tíma vil ég líka koma með einhverjar lausnir á þessum vanda og leyfa fólki að finna að það séu líka til einhverjar lausnir til að róa lesblinduna.

Mig langar að bjóða ykkur inn í minn hugarheim þegar ég les. Lesblindan mín lætur stafina hoppa úr stað og dansa á síðunni. Sérstaklega þegar textinn er settur upp með fótaletri eins og Times New Roman. Stundum sit ég og les og er búin með nokkra kafla þegar ég fatta að ég er ekki búin að meðtaka stakt orð sem ég á að hafa lesið. Það kemur fyrir að orðin margfaldast ofan á hvort annað og myndi orðasúpu á síðunni. Það hjálpar mér oft að hafa hljóðbók í eyrunum meðan ég les bækur en það eru ekki alltaf til hljóbækur eða hljóðbrot af textum.